ÞORPIÐ Í FLATEY

VERNDARSVÆÐI Í BYGGÐ

Verkefnið er unnið samkvæmt leiðbeiningariti Minjastofnunar Íslands um verndarsvæði í byggð. Sett er fram tillaga að verndarsvæði ásamt greinargerð þar sem gerð er grein fyrir mati á varðveislugildi byggðarinnar sem styður að byggðin verði verndarsvæði í byggð. Greinargerðin byggir að miklu leyti á upplýsingum sem koma fram í Byggða- og húsakönnun fyrir Flatey. Könnunin er af Guðmundi L. Hafsteinssyni arkitekt og er í grunnin frá 2006  en var uppfærð árið 2017. Könnun byggir á svokallaðri SAVE aðferð sem felst í því að meta listrænt gildi, menningarsögulegt gildi, umhverfisgildi og upprunalegt gildi.  Á grunni varðveislumats eru settar fram tillögur að stefnu um vernd og uppbyggingu innan fyrirhugaðs verndarsvæðis.  

Samráð við hagmunaaðila 

Í lok janúar 2018 var haldinn fundur með húseigendum. Markmið fundarins var að eiga samtal við hagsmunaaðila um tillögugerðina. Ekki voru kynntar tillögur, heldur var markmiðið að safna efnivið sem gæti nýst inn í tillögugerðina.  Fundarmenn óskuðu eftir að fá tækifæri til að skila inn athugasemdum í framhaldi af fundinum og var fundarmönnum og öðrum á netfangalista Framfarafélags Flateyjar

boðið að senda ábendingar og sjónarmið varðanda tillögugerðina fyrir 17. febrúar, en sá frestur var síðan framlengdur til 21. febrúar. 

Í hjálagðri fundargerð af fund stýrihóps þann 28. febrúar 2018 eru dregin saman helstu sjónarmið sem komu fram á framangreindum fundi og dregnar saman athugasemdir sem bárust stýrihópi eftir fundinn.  Í fundargerðinni koma fram svör og útskýringar stýrihóps.  

Kynning vinnslutillögu

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á á fundi sínum 9. maí sl. að auglýsa til kynningar vinnslutillögu um verndaráætlun með verndarstefnu ásamt greinargerð.  Öllum sem telja sig eiga hagsmuna að gæta var gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna til 15. ágúst 2018.  

Haldinn var kynningarfundur þann 9. nóvember 2018 með fasteignaeigendum í Flatey þar sem vinnslutillagan var kynnt og um hana rætt.

Tillaga samþykkt og staðfest

Sveitarstjórn samþykkti þann 13. nóvember að auglýsa tillöguna formlega
skv. 5. gr. laga um verndarsvæði í byggð. Gefinn var 6 vikna
athugasemdafrestur. Sveitarstjórn fjallaði um framkomnar athugasemdir við auglýsta tillögu á fundi sínum þann 12. febrúar 2019 og að tillaga að verndarsvæði yrði send mennta- og menningarmálaráðherra til ákvörðunar í samræmi við 5. mgr. 4.gr. laga um verndarsvæði í byggð.

Þann 17. ágúst 2019 í Flatey staðfesti Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, með undirritun skjals að Þorpið í Flatey væri verndarsvæði í byggð. 

Tillöguna má finna hér  

UM VERKEFNIÐ

Flatey á Breiðafirði er einstakt svæði á Íslandi vegna þeirrar landslagsheildar, Breiðafjarðareyja, sem hún er hluti af  og vegna lífríkis og búsetusögu. Þorpið í Flatey er talið hafa mikið verndargildi, hvort heldur sem litið er til einsakra húsa, samstæðu húsa eða þorpins í heild. Sérstaða Þorpsins er talin slík að minnstu inngrip eða breytingar á húsum geta haft veruleg áhrif á svipmót byggðarinnar. Þetta kemur m.a. fram í húsakönnun sem gerð hefur verið og nálgast má hér.

Um Breiðafjörð og eyjar hans gilda sérstök lög  (nr. 54/1995) sem hafa þann tilgang að stuðla að verndun landslags, jarðmyndana, lífríkis og menningarminja. Nýleg lög um verndarsvæði í byggð (nr. 87/2015) gera kleift að festa vernd Þorpsins í Flatey enn betur í sessi og fékk Reykhólahreppur styrk úr Húsafriðunarsjóði til að vinna tillögu til  mennta- og menningamálaráðherra um að Þorpið í Flatey verði gert að verndarsvæði í byggð  á grundvelli síðarnefndu laganna. Verndarsvæði í byggð er skilgreint í lögunum sem „Afmörkuð byggð með varðveislugildi sem nýtur verndar samkvæmt ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra á grundvelli laga þessara.“  

 

Til að vinna að framangreindri tillögugerð skipaði sveitarfélagið stýrihóp og fékk ráðgjafarfyrirtækið Alta sér til aðstoðar. Í stýrihópnum sitja: Áslaug Berta Guttormsdóttir  og Karl Kristjánsson f.h. Reykhólahrepps og Gyða Steinsdóttir og Valdimar Valdimarsson f.h. Framfarafélags Flateyjar. Jóhanna Ösp Einarsdóttir hefur tekið sæti í stýrihópi í stað Áslaugar fyrir hönd Reykhólahrepps. 

Verkefnið felst í að vinna tillögu að verndarsvæði ásamt greinargerð þar sem færð eru rök fyrir tillögunni í samræmi við leiðbeiningar Minjastofnunar Íslands. Þessi vefur er kynningarvefur um verkefnið og framgang þess.

 
 
HAFA SAMBAND

Success! Message received.

 
KYNNINGAR- OG AUGLÝSINGARFERLI